
- This event has passed.
Una Björg Magnúsdóttir: Svikull silfurljómi
7 October, 2023–29 October, 2023

Sýningin Svikull silfurljómi birtist okkur í rými sem er algerlega nýtt, skuggalaust í þeim skilningi að hér hefur ekkert gerst áður. Horn hússins eru enn skörp en munu mýkjast og rúnast í fyllingu tímans. Á sýningunni eru höggmyndir og myndverk sem bregðast ýmist beint við rýminu eða velta upp spurningum um tíma, gildismat, eftirlíkingar, speglanir og leiðir til að falla inn í umhverfi sitt. Grænt handrið ber með sér óljósa minningu um Samkomuhús í Súðavík, minningu sem erfitt er að henda reiður á, hún hangir rétt utan seilingar.
Hlutverk rauða litarins er að standa vörð um eldmóð og ástríðu.
Önnur verk sýningarinnar eru í hógværum eftirhermuleik, teningaborg, eldspýtnabréf, og stafli af silkipappír. Einfaldar einingar sem hver af annarri raðast saman. Þær herma hver eftir annarri á víxl þannig að erfitt er að greina hver hóf leikinn og hver speglar hverja. Með tíma og hægum breytingum mást út sérkenni hverrar um sig og til verður samfella, kannski felumynd.
Grár skuggi leitast við að öðlast lit, lögun, áferð og massa. Litlaus liðast hann um, hátt upp eftir veggjum og niður eftir gólfi. Horn eru ákjósanlegust. En grár er ekki litlaus, ekki í raun, litir ljóma í gráu.
Þessi sýning verður alltaf fyrsta lag hússins, á undan svefnlausum nóttum, hrúgum af þvotti og fermingarveislum. Brátt kemur innrétting, gólfefni, heimilistæki og aðrar nauðsynjar til að skapa heimili. Hér var aldrei sýning.
UNA BJÖRG MAGNÚSDÓTTIR
Una Björg beitir ýmsum brögðum í verkum sínum til að velta upp spurningum um fegurð, gildi, tilvist okkar, hegðun og hátterni. Hún notar til þess áferð og gildishlaðin efni á slunginn en sparlegan hátt. Með nákvæmum uppstillingum á fábrotnum munum skapa verkin ákveðið sýndaryfirborð þar sem allt virðist með felldu. En verkin taka á sig háttvísa blekkingu og dansa á óræðum skilum þess raunverulega og eftirlíkingar til að kalla á óskipta athygli áhorfandans.
Una Björg Magnúsdóttir (f. 1990) nam myndlist við Listaháskóla Íslands og stundaði framhaldsnám við ÉCAL í Sviss þaðan sem hún útskrifaðist árið 2018. Verk hennar hafa verið sýnd meðal annars í Listasafni Reykjavíkur, Gerðarsafni, Y gallerí, KEIV í Aþenu, GES-2 í Moskvu og Nordatlantens brygge í Danmörku. Hún dvelur um þessar mundir í gestavinnustofum Kunstlerhaus Bethanien í Berlín.
EINKASÝNINGAR Á VEGUM LISTASAFNS ASÍ
Una Björg Magnúsdóttir er fjórði listamaðurinn sem velst til þátttöku í sýningaröð Listasafns ASÍ þar sem skipulagðar eru einkasýningar valinna listamanna á tveimur stöðum á landinu.
Listasafn ASÍ býr við ágætan húsakost en er um þessar mundir starfrækt án þess að hafa yfir eigin sýningarsal að ráða. Á meðan þetta tímabundna ástand varir hefur safnið átt gjöfult og gott samstarf við stofnanir, samtök og einstaklinga víðsvegar um landið og skipulagt með þeim sýningar á bæði eldri og nýrri verkum.
Listasafn ASÍ býr við ágætan húsakost en er um þessar mundir starfrækt án þess að hafa yfir eigin sýningarsal að ráða. Á meðan þetta tímabundna ástand varir hefur safnið átt gjöfult og gott samstarf við stofnanir, samtök og einstaklinga víðsvegar um landið og skipulagt með þeim sýningar á bæði eldri og nýrri verkum.
Kallað er reglulega eftir tillögum frá myndlistarmönnum sem vilja vinna með safninu og eitt verkefni valið hverju sinni. Sýningarstaðirnir eru valdir í samvinnu við listamennina sem taka þátt og eru til skiptis á höfuðborgarsvæðinu og í öðrum landshlutum.
Staðirnir sem urðu fyrir valinu fyrir einkasýningar Unu Bjargar Magnúsdóttur eru Súðavík og Mosfellsbær. Una Björg velur sýningarrýmin af kostgæfni og leyfir verkunum á sýningunni að spretta fram sem einhvers konar viðbragð við því sem í rýminu felst. Fyrri einkasýning Unu var haldin í samvinnu við Samkomuhúsið í Súðavík og seinni sýningin er haldin í einbýlishúsi sem nú er í byggingu við Kvíslartungu 28 í Mosfellsbæ.
Samhliða sýningunum verða skipulagðar leiðsagnir og haldin myndlistarnámskeið fyrir leik- og grunnskólabörn þar sem unnið er m.a. með elstu verkin í safneigninni og gerðar stuttmyndir fyrir heimasíðu safnsins.
SÝNINGARSTAÐURINN Í MOSFELLSBÆ
Kvíslartunga 28 í Mosfellsbæ er tæplega fjögur hundruð fermetra einbýlishús í byggingu. Sýningin fer fram í húsinu þegar það er á lokastigum framkvæmda og tilbúið undir tréverk. Arkitekt hússins er Björgvin Snæbjörnsson teiknistofunni APPARAT. Sýningin er haldin í samvinnu við eigendur hússins sem er byggingarverktakafyrirtækið EJ BYGG og ALLT fasteignasölu.
LISTASAFN ASÍ
Listasafn ASÍ var stofnað árið 1961. Iðnrekandinn og bókaútgefandinn Ragnar Jónsson í Smára lagði grundvöllinn að listasafninu með því að gefa Alþýðusambandi Íslands málverkasafn sitt – um 147 myndir – eftir marga af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu. Listasafn ASÍ hefur alla tíð starfað með þessi fræðslusjónarmið frumkvöðulsins að leiðarljósi og hefur m.a. sérhæft sig í myndlistarsýningum sem settar eru upp á vinnustöðum og stofnunum víða um land. Verkefni safnsins hafa verið fjölbreytt í gegnum tíðina og safneignin hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess fyrir tæpum sextíu árum og geymir nú um 4300 verk. www.listasafnasi.is