
- This event has passed.
Birgir Snæbjörn Birgisson: Gerviblóm
3 June, 2023–25 June, 2023

Þegar falleg rós deyr þá deyr ekki fegurðin vegna þess að fegurðina er ekki að finna í rósinni. Fegurð er hugarástand. Hún er andlegt og tilfinningalegt viðbragð okkar. Við bregðumst við lífinu sem það væri fullkomið.
Agnes Martin, Beauty is the Mystery of Life.
Á sýningunni Gerviblóm gefur að líta tálmyndir. Myndlistin og þá sér í lag málverkið hefur í gegnum listasöguna oft verið kallað gluggi að raunveruleikanum en hver er þessi raunveruleiki og er myndlistin sjálf við nánari skoðun nokkuð nema eftirmynd eða gervi.
Tilbúin fegurð gerviblóma getur heillað á marga ólíka vegu. Myndlistarmaðurinn Birgir Snæbjörn Birgisson erfði safn gerviblóma sem verið hafði í eigu móður hans. Hún var mikill blómaunnandi. Safninu og sögu þess fannst Birgi hann verða að gera einhver skil. Margt kom til greina enda hægt að vinna með blómin á marga vegu. Gerviblóm eru eftirmyndir lifandi blóma og því reyndist áhugavert að taka af þeim þrykk í formi grafíkverka á pappír, skrásetja þau sem einskonar eftirmyndir af eftirmyndum. Lifandi blóm, þrátt fyrir fegurð, vísa óhjákvæmilega til hverfulleika og þeirrar staðreyndar að tilveran er tímabundin. Því má líta á gerviblóm sem ákveðna leið til að afneita hverfulleikanum, í það minnsta slá honum á frest. Á sýningunni gefur jafnframt að líta eitt málverk eftir Birgi sem tengist Eyjafirðinum og er byggt á gamalli fréttaljósmynd af hjónum sem ráku fósturheimili á Hjalteyri. Heimili sem mikil umfjöllun hefur verið um vegna meintrar gagnrýni á starfshætti hjónanna. Ímynd heimilisins og yfirlýstur kærleikur reyndist tilbúningur einn, eða gervi.
Birgir Snæbjörn Birgisson fæddist á Akureyri árið 1966 og stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og École des Arts Décoratifs, í Strasbourg í Frakklandi. Verk Birgis beinast að pólitískum, samfélagslegum og sögulegum málefnum í okkar samtíma. Á listilegan hátt sameinast næmni og mildi háalvarlegu inntaki. Hið fínlega og hið smáa, því sem næst hvíslandi framsetning Birgis, magnar upp háskerpu skilningarvitanna. Sú einlæga frásögn sem Birgir töfrar fram, knýr áhorfandann til að takast á við gagnrýna hugsun með því að afhjúpa sakleysislegt yfirbragð og alla þá mýkt sem af verkum Birgis stafar.